Wednesday, December 29, 2010

Leirtausmál



Fyrir rúmum fimm árum, þegar ég skildi, þurfti ég að kaupa slatta af dóti til heimilisins, m.a. borðbúnað. Helstu staðirnir til þess arna (fyrir minn fjárhag) voru IKEA og Góði hirðirinn. Diskurinn sem hér sést er einn af sex sem ég fékk í límdum bunka í Góða. Á svipuðum tíma keypti ég jafnmarga diska í IKEA. Í dag eru þeir fyrrnefndu allir við góða heilsu, en aðeins tveir IKEA diskarnir lifa. Flestar skálar og annað leirtau sem ég keypti í IKEA á þessum tíma átti skamma (óskörðótta) ævi og þykir mér því sýnt að IKEA leir sé argasta frat.

Diskarnir gömlu eru framleiddir í Bretlandi, sennilega á áttunda áratugnum. Ef ég skil umfjöllun um Biltons rétt, hefur verksmiðjan sú gengið kaupum og sölum (eins og fótboltafélag) frá árinu 1900 og er nú til húsa í Stoke. Hef séð á netinu sama mynstur á leirtaui, en ekkert þó með þessum gula lit. Með í bunkanum góða í Góða þvældist einn "öðruvísi" diskur (sjá hér að neðan), sá er einfaldlega merktur Biltons England, og er í alveg sömu stærð og hinir. Mér finnst ávaxtamynstrið ágætt, en líkar þó betur við retróskapinn í hinum.
Gamalt og gott, það er málið.

Friday, December 24, 2010

Japanskur blár


Sonur minn, hann Matthías, er nýorðinn stúdent og af því tilefni bönkuðu góðir vinir upp á hjá okkur um daginn. Þau færðu Matta veglega gjöf og þessa þokkafullu rós. Algjör heppni að ég skuli hafa verið nýbúin að festa kaup á hentugum blómavasa hjá kristniboðunum.

Vasinn er japanskur og harla snotur, eða það finnst mér að minnsta kosti.

Friday, December 17, 2010

Ávaxtakits



Stundum dregst ég að hlutum af því að þeir eru einhvern veginn...skrítnir. Á markaði í París fyrir nokkrum árum fann ég þessa platta, ef platta skyldi kalla. Þeir eru á stærð við væna matardiska og á öðrum hanga epli og hinum perur. Mér þykir varið í þá, ójá. Veit ekkert hver bjó þá til en ímynda mér að það hafi verið litblindur frístundaartísti með duldaduld. Franskur og vanmetinn.

Ef til vill voru epli og perur ekki eftirlætisávextir listhneigða Frakkans, en bananar myndu ekki gera sig á svona platta.

Monday, December 13, 2010

Kristniboðsgrams

Nú er ég orðin rangeygð af því að liggja á netinu yfir upplýsingum um stimpla og merkingar á Royal Copenhagen pústulíni. Það sem maður getur sökkt sér í fánýtan fróðleik. En jæja. Ég fór í kristniboðsbúð í Austurveri í dag, þar gefur að líta allskonar föt og dót. Mjög skemmtilegt að gramsa, mæli með því. Fann fína hluti, keypti tvær skálar, einn vasa og tvo kertastjaka. Er ekki búin að taka mynd af neinu nema uggusuttla kertastjakanum sem hér sést.Svo gramsaði ég heima hjá mér um daginn, þegar ég hafði góðan tíma sökum hnjámeiðslaafturbatahvíldarferlis. Fann þennan líka fína vasa sem ég keypti fyrir mörgum árum í antikbúðarholu á Laugaveginum. Ætlaði að gefa hann, en af því varð ekki. Vasinn er um 15 sm hár, ómerktur, hundgamall og greinilega handmálaður. Mér finnst hann fallegur á litinn, það eru litir sem draga mig að hlutum og æra upp í mér gramshneigðina.Kannski maður gefi hann einhverjum verðugum vasaþega. Seinna.

Thursday, December 9, 2010

Fuglapottur



Mamma sagði oft í gamla daga að það væri "víða pottur brotinn". Ég sá alltaf fyrir mér haldlausa eða brotna stálpotta, en núna þegar ég heyri þetta sagt sé ég fyrir mér brotna blómapotta (og skil merkingu orðtaksins að auki, sem ég gerði ekki sem barn). Hef meiri reynslu af brotnum leir en mölvuðu stáli. Hvað sem því líður tók hjarta mitt gleðihopp þegar ég sá þennan fína alls óbrotna pott í Góða hirðinum. Eitthvað svo kátt við þetta litaspil og ekki spilla fuglarnir fyrir.

Tuesday, December 7, 2010

Hin dularfulla Elly Volff


Fyrir nokkrum árum er ég gekk framhjá antikbúðinni á Skólavörðustíg var búið að hrúga saman á lítið borð ýmsum munum "á útsölu". Ég stóðst ekki mátið og gramsaði. Gramsarar gramsa. Þessi kertastjaki fangaði athygli mína og voru fyrir því nokkrar ástæður. Hann var fallega blár, svolítið "heimagerður" að sjá og rækilega merktur skapara sínum. Og svo þegar ég pússaði málmkantinn og kertasætið kom í ljós að þar fór skínandi kopar.
En hver var Elly Volff? Skyldi hún vera á lífi? Býr hún enn í Virum? Var hún hippi? Var hún brosmildur axarmorðingi? Var hún bæld eiginkona rauðhærðs gjaldkera?

Kertastjakinn er í fiskamerkinu.

Sunday, December 5, 2010

Þáhyggja

Þegar ég var lítil var til nákvæmlega svona kertastjaki á heimilinu. Rakst á þennan í Góða hirðinum um daginn og gat ekki á mér setið. Ekki mikið að borga tvo-þrjá hundraðkalla fyrir hlýja bernskuminningu.

Saturday, December 4, 2010

Fjólur veggjarins


Eignaðist þessa Jie platta í sumar og veit ekkert hvað ég á að gera við þá. Þrátt fyrir að vera ósköp snotrir og skarta blómum, eru þeir svo ólíkir að það er varla hægt að hengja þá upp saman. Ekki notar maður þá sem diska eða undir heita potta. Ef einhver er að safna svona plöttum, má hafa samband við mig, ég gæti verið til í vöruskipti:)

Stjaki

W-Germany stendur undir þessum kertastjaka sem vakti athygli mína fyrir sérkennilegan útvöxt. Hallast ég helst að því að þessi nabbi sé óhönduglegt handfang, nú eða hliðarsjálf stjakans. Kertastjakinn er um 10 sm hár og af einhverjum ástæðum er erfitt að ná á mynd undanrennutónum glerungsins. Sem mér hugnast (prófið að smella á myndina svo þið megið dást að fölleitum, transfitulausum litnum).

Undanrenna er góð.