Sunday, May 29, 2011

Plast og blóm og pottar

Ég er síumpottandi upp á síðkastið. Alltaf að dedúa við plönturnar mínar. Auk þess hef ég tekið ástfóstri við gamla plastpotta af ýmsum stærðum og gerðum, en þá finn ég á skransölum og nytjamörkuðum. Flestir pottanna sem hér sjást eru framleiddir í Þýskalandi og Svíþjóð.
Sumir plastpottar þykjast vera úr tré og skreyta sig með skínandi málmgjörðum.
Aðrir eru í gervi vandlega fléttaðrar körfu.
Plöntunum hef ég komið til vits og þroska frá örsmáu fræi. Ást mín til þeirra gengur svo langt að ég ét þær, en bara ef þær eru góðar.

Tuesday, May 17, 2011

Blóm hins unga Stålhane

Þessi litla skál kom í póstinum í dag. Hún er hreint listaverk, þykir mér.
Varfærnislegar pensilstrokur...
Skálin er merkt Carl-Harry Stålhane, en hann byrjaði að vinna hjá Rörstrand árið 1939, þá 18 ára gamall. Ég ímynda mér að þessi fíngerða blómaskál sé eitt af fyrstu verkum hans þar, án þess ég viti það. Stíllinn breyttist mjög hjá Stålhane í áranna rás. Hann gerði t.d. groddalega vasa á níunda áratugnum. Hér má lesa aðra skemmtilega færslu Þórdísar um CHS.
Brosir nú blómabarnið. Stálhaninn gleður.

Sunday, May 15, 2011

Búkolla

Í gær brugðum við okkur í bíltúr upp á Skaga til að skoða nytjamarkaðinn Búkollu. Og auðvitað Hvalfjarðargöng, máva, hús og mannlíf í leiðinni. Það var ósköp notalegt að koma í Búkollu, nóg pláss, snyrtilegt og fínt. Þarna var ýmislegt til sölu, slatti af húsgögnum, bókum, plötum og allskonar dóti.

Ég keypti nokkra blómapotta (kækur), leirfíl og svo þetta eggjabikarasett. Bikararnir eru þræddir upp á pinna þannig að notkun settsins þroskar hug og hönd. Þess má einnig geta að það er úr úrvals viði, kannski hnotu. Og vönduðu plasti.
Fílakertastjakinn er algjör krúttbomba.
Ekki verður það sama sagt um þetta plötuumslag. Engum getur þótt þessi náungi krútt. Engum segi ég, ekki einu sinni mömmu Demisar.


Talandi um mömmur og söngvara. Það var dágóður stafli af hljómplötum til sölu í Búkollu á 250 krónur stykkið. Ófáar skífurnar voru með áþrykktum söng Kristjáns nokkurs Jóhannssonar.

Kjarakaup.

Saturday, May 7, 2011

Blátvíburar

Um daginn heimsótti ég Nytjamarkað ABC hjálparstarfs, sem fluttur er í bjart og rúmgott húsnæði við Súðarvog (þar sem timbursala Húsasmiðjunnar var áður). Þarna fann ég eitt og annað fínerí, m.a. 12 Piretti diska frá Arabia, tvo fagurbláu blómavasa og margt fleira. Verði er mjög stillt í hóf, flest t.d. ódýrara en hjá kristniboðunum í Austurveri (án þess þeir séu sérstakir okrarar).
Vasarnir bláu eru hálfgerðir puttar, 10-12 sm háir. Ég þykist viss um að þeir séu þýsk framleiðsla frá sjöunda eða áttunda áratugnum, og eftir því sem ég kemst næst Haldensleben (fann reyndar enga almennilega mynd af merkingu Haldensleben keramiks).
Í nytjamarkaðnum rakst ég líka á þennan blágræna blómapott. Hef ekki hugmynd um uppruna og ætterni, en hann býður af sér góðan þokka.
Gerðist síðan í annað sinn á ævinni búðarkona á skransölu, þ.e. á Eiðistorgi í dag. Það var heldur daufara en síðast og kom ég út úr því dagsverki með 200 krónur í plús. Íslenskar.

Friday, May 6, 2011

Appelsína talandi

Appelsínugult bætir, hressir, kætir. Hér má sjá áleggshníf úr þýsku gæðastáli (Góði hirðirinn, 1200 krónur) og kökudisk úr þýsku gæðaplasti (Góði hirðirinn, 200 krónur). Einnig danska steinseljukvörn úr fyrndinni.
Steinseljukvörnin er í upprunalegum umbúðum og lítur út eins og nýsleginn túskildingur.Ef horft er ofan í (þetta bráðnauðsynlega áhald á hverju heimili) gefur að líta ógnvænlegan skolt sem malar ljós og skugga.
Auk þess minni ég á Skransölu aldarinnar hjá Rúnu og Ara á Þurá í Ölfusi, laugardaginn 21.maí 2011. Þar verður margt eigulegra muna og yðar einlæg verður á staðnum í sínu fínasta skranpússi.