Thursday, September 27, 2012

Af líkamlegu sambandi við leir



Rakst á þennan stórkostlega vasa um daginn hjá Samhjálp. Hann er gamall, danskur og engin smásmíði, 31 sm á hæð. Gæðagripurinn er framleiddur á Fjóni af Ravnild leirgerðinni sálugu, rétt eins og fallega röndótta skálin mín sem er í miklu uppáhaldi. Skálin á sér félaga núorðið, það er lítil kanna sem hún Þórdís gramssystir gaf mér. Fallegt par og elegant.

Varð bara að deila þessu með ykkur. Þakka þeim sem hlýddu.

Sunday, September 23, 2012

Stokkhólmssyndrómið

Fór í þriggja daga vinnuferð til Stokkhólms og mátti hafa mig alla við, allan tímann, til að æpa ekki OMG! OMG! og jafnvel OMG!!! eins og hver önnur frónversk gelgja.

Ég kolféll sumsé fyrir Stokkhólmi, sem er ekki bara óendanlega falleg borg heldur er þar sérlega afslappað og vingjarnlegt andrúmsloft. Fólk var líka almennt svo velmegunarlegt, lekkert og frítt, ég gat ekki annað en velt fyrir mér hvar Svíar geymi ljótu þegnana. Mér finnst Stokkhólmur á að giska sprilljón sinnum fallegri og skemmtilegri borg en Kaupmannahöfn. Og þótt ég hafi lært dönsku í mörg ár og aldrei sænsku, gekk mér miklu betur að skilja og tala sænsku en dönsku. Sem er enn undarlegra þegar maður tekur með í reikninginn að ég hef oft verið í Danmörku en eiginlega aldrei komið til Svíþjóðar áður (bara verið dagpart í Lundi og Málmey).

Ef ykkur langar að skoða myndir af Stokkhólmi í kvöldsól og svoleiðis, verðið þið að myndagúggla. En hér koma myndir af ýmsu sem mér fannst áhugavert í Stokkhólmi.
 Risastórar dalíur í almenningsgarði, mér var hugsað til ræflanna sem hafa verið að berjast við að springa út úti á svölum hjá mér, en íslenska sumarið dugði ekki til. Til eru fræ og allt það ...
Lítill fugl sem heilsaði upp á mig á kaffihúsi á Skeppsholmen. Eftir að hafa fengið sér vatnssopa hoppaði hann niður og hámaði  í sig smjör (ég nennti ekkert að trufla hann með röfli um transfitusýrur og svoleiðis). Ég var reyndar mun heppnari en gamla konan á næsta borði sem varð fyrir árás mávs á stærð við Volvo.
















Jú, auðvitað notaði ég frítímann í að skoða Moderna museet, Gamlastan, kirkjur, menningarlega hluti og gömul hús. En líka Myrorna, Stockholms Stadsmission og Emmaus Söder. Það kom mér á óvart hvað allt var snyrtilegt, hreint, vel skipulagt og ... dýrt í þessum nytjamörkuðum. 

Og þá velti ég fyrir mér hvað sænskir nytjamarkaðir geri við draslið sem þeir fá gefins, fjöldaframleidda krappið sem Góði hirðirinn og slíkar búðir eru fullar af (þótt þar sé líka fínt dót inn á milli). Er lélega og ósmekklega draslið hjá ljóta fólkinu? Maður spyr sig.

 En mikið rosalega var gaman að skoða, og vitaskuld féll ég í freistni og keypti nokkra hluti. Sem mig bráðvantaði!

Thursday, July 26, 2012

Fiskurinn sem fór í bað


 Á nytjamarkaði varð á vegi mínum fiskur, hann var óásjálegur en eitthvað við hann vakti athygli mína. Fiskurinn var svartur og brúngylltur. Ég tók hann upp, sá að hann hafði verið spreiaður, sneri honum við og sjá: þetta var Bay keramik frá miðri síðustu öld, og hafði einu sinni verið blátt ef marka mátti bakhliðina. Skil ekki hvernig fólki getur dottið í hug að spreia svona elegant keramik, það er bara mannvonska.

Ég fór í Byko og spurði bólugrafinn ungling sem þar var að störfum um efni sem næði svona lakki af og vildi hann helst selja mér einhvern "paint stripper" óþverra sem kostaði 3000 kall. Ég spurði hvort terpentína dygði mögulega, og við það yppti drengurinn öxlum og sagði "kannski". Ég keypti terpentínu og lagði fiskinn í bleyti í heilan sólarhring.

Eftir terpentínubaðið langa og ákaft nudd var fiskurinn alveg jafn svartur og áður. Datt mér þá í hug að prófa aseton, og viti menn! Málningin flaug af með naglalakkseyðinum.

Og nú á ég firna sætan fisk.

Monday, July 16, 2012

Lampi frá Glit



Glit framleiddi aðskiljanlegustu muni, afskaplega fjölbreytta. Held stundum að Glit hafi framleitt allt sem hægt er að framleiða úr keramiki, nema kannski klósett.

Hér er Glitlampi. Skermur frá íslenskri skermagerð prýðir hann. Mér finnst þetta svalt og hef stundum hugsað um hvílíkt gósenland heimili mitt væri þeim propsara sem vantaði gamalt dót fyrir kvikmynd sem gerast á á sjöunda eða áttunda áratug síðustu aldar. Skil ekki af hverju ég hrífst svona af fortíðardóti - það er aldeilis ekki eins og ég vilji búa í fortíðinni, fuss og fne. Frekar skreppa þangað í tímavél og krækja mér í flott stöff til að taka með mér aftur til framtíðar.

En nú er sumar. Það gleður mig.

Friday, May 25, 2012

Fiskblómapottur

Það sem litlir hlutir geta kætt mann. Fann þennan fiskpott í Góða í dag, þegar ég skondraðist þangað eftir vinnu. Fiskurinn er vestur þýskur kaldastríðsleir, frá Vetter. Mér finnst hann kjút.

Sunday, May 13, 2012

Rauður minn er sterkur stór



Ég er með dellu fyrir gömlu dóti. Um það þarf ekki að efast. Sambýlismaður minn elskulegur umber delluna í mér af ójarðneskri þolinmæði, þess vegna er ég með dellu fyrir honum líka. Og það þrátt fyrir að hann sé yngri en ég (enda gilda aðrar reglur um karlmenn en blómavasa).

Við Hjálmar fórum í Hús fiðrildanna í gær og þar keypti hann handa mér glæsilega rauða gólfvasann sem sjá má á myndunum hér að ofan. Þetta er stærsti vasinn í safninu mínu, vestur þýskur Bay í óaðfinnanlegu standi, 41 leirsentimetri af heybabbelúlla-sjísmæbeibí.

Og ekki nóg með það heldur gaf hinn gaurinn sem ég bý með, Matti miðjubarn, mér rauðar rósir í dag.

Lífið verður nú ekki mikið betra skal ég segja ykkur.

Saturday, May 5, 2012

Sett sófa, her leirs


Ég er að venjast nýja (gamla) sófasettinu. Settið er svo nett að maður þorir varla að fitna lengur. Og svo hvítt að maður drekkur bara vatn. Allt eins og best verður á kosið. Skemillinn á efri myndinni er upprunninn frá ömmu Hjálmars, en hún mun hafa saumað hann út. Mér finnst skemillinn hæfilega sækadelískur og mátulega grænn.

Kaldastríðsleirherinn gleður mig upp á hvern dag, ekki síst eftir að ég raðaði vösunum í þessar ágætu hilluherbúðir. Dóttur minni þykja vasarnir ljótir, en ég er sannfærð um að hún eigi eftir að þroskast upp í dannaðan smekk móður sinnar. Annað hvort væri það nú.

Munum eftir bestu sjoppunni í bænum. Adjö!

Saturday, April 7, 2012

Rússnesk mynd, sófasett og kjóllinn

Mikið er indælt að vera í páskafríi. Búin að vera dugleg að taka til og snurfusa, svo nýbólstraða sófasettinu líði eins og heima hjá sér. Það er nefnilega fínt með sig, og verður það þangað til ég verð amma og barnabörnin mæta á svæðið með græna frostpinna. Hvenær sem það nú verður *andvarp*

Um daginn fann ég þessa fallegu blómamynd á nytjamarkaði, ramminn og glerið voru svo krímug að varla sást í blómin. Ég hélt þetta væri prentuð mynd en þegar ég tók hana úr rammanum sá ég að hún er máluð og signeruð. Aftan á myndinni er miði með ágætum skýringum á rússnesku. Mér þætti fengur í að vita hvað stendur á miðanum, en kann ekkert í rússkí. Þigg gjarnan hjálp, ef hjálp er að fá meðal lesenda minna (allra fimm).
Svo ég vaði nú úr einu í annað. Hjólaði áðan niður í bæ í rigningunni og kom við í Rokki og rósum. Er að leita mér að kjól fyrir brúðkaup dóttur minnar í sumar, ætlaði að hafa tímann fyrir mér svo ég yrði ekki í stresskasti á síðustu stundu.

Held að þessi græni kjóll með fislétta sjiffonpilsinu og dásamlega fóðrinu (ólýsanlegt á litinn, sanserað dumbfjólublátt) sé kjóllinn. Fyrir móður brúðarinnar.

Nú vantar mig sjal, grátt eða silfurlitt, lekkert og þunnt sem köngulóarvef. Ég á nefnilega skæslega silfurskó.

Thursday, March 22, 2012

Föndurhornið





Fann gamlan og grúví lampa hjá Samhjálp um daginn (kr. 800). Hann var grútskítugur og bastið á skerminum tætt og slitið. Ég fór í föndurbúð og keypti þrjár fagurgular bastdokkur (kr. 1500) og vafði bastinu utan um skermgrindina, það gekk furðu vel miðað við að ég er ég. Síðan þreif ég lampann og rafvirki heimilisins rafvirkjaðist.

Árangurinn má sjá á myndunum. Lampinn hangir nú hinn rólegasti og bíður sófasettsins sem bráðum kemur heim.

Fylgist með, fylgist spennt með.

Thursday, March 8, 2012

Órói, kvika, keramik



Ó, ég er svo happí með þetta veggskraut úr keramiki! Eiginlega er varla hægt að kalla þetta óróa, af því að það er bara glerungur öðrum megin á plötunum, en einhver órói er þarna samt.

Allir þekkja íslenskt hraunkeramik, en ekki þarf að rýna lengi í myndina í miðjunni til að sjá að hér á landi gátu menn líka galdrað fram glóandi kvikukeramikóróadims.

Dýrðin er úr smiðju Hrafnhildar Tove Kjarval og Robin Løkken, í upphafi áttunda áratugs síðustu aldar. Hún Þórdís skrifaði um Kjarval og Løkken hér og hér.

Mun þennan fann ég hjá Kristniboðunum í Austurveri. Klárlega. (Svo maður bregði nú fyrir sig ljótri tísknesku).