Tuesday, February 28, 2012

Tveir vasar og annar úr gleri


Hér er mættur enn einn kaldastríðskallinn, VEB Haldensleben (framleiddur í Austur Þýskalandi). Hann spilar græna etýðu með tilbrigðum við ljós.


Og halló, hér gefur að líta glervasa sem mér þykir æ meira varið í. Keypti hann fyrir margt löngu hjá Búkollu uppi á Akranesi. Elskulegur partnerinn gefur mér stundum túlípana og vasinn ósamhverfi fer þeim vel. Jarðnesk fegurð er ekkert endilega verri en himnesk.

Auk þess minni ég á Flóamarkað á Eiðistorgi þann 3.mars nk., þar verða Dísa og Beta með horn, hala og klaufir, spúa eldi og gleypa sverð. Missið ekki af því.

Saturday, February 18, 2012

Appelsínuleir og gler

Já, þessi vasi er risastór (35 sm hár) og appelsínugulur. Hann á ættir að rekja til vestur þýska framleiðandans Steuler. Ég borgaði heilan 5 þúsundkall fyrir vasann, enda er vasablætið alveg að fara úr böndunum. Brátt verð ég á götunni fyrir sakir hömluleysis í leirkaupum.

Appelsínuyndið kaldastríðs keypti ég í Húsi fiðrildanna, gramsilegri búð í heimahúsi á Hörpugötu. Margt fínt að sjá, þótt eigi jafnist á við Flóamarkað Dísu og Betu (það gerir vitaskuld engin verzlun).

Í dag þrammaði ég líka í Kolaportið og fann þar Holmegaard kertastjaka, hann er nú eitthvað fyrir augað, ha?

Sunday, February 5, 2012

Smali, bóndi, hundur, kind og kertastjaki








Í gær fórum við í Kolaportið og rákumst þar á ungan mann sem var að selja leirstyttur og ýmislegt annað dót. Eitthvað við stytturnar greip athygli mína og spurði ég unga manninn hvort hann kynni deili á þeim. Í ljós kom að stytturnar voru málaðar af Magnúsi Þórarinssyni listmálara og var ungi maðurinn einmitt barnabarn Magnúsar.

Magnús heitinn stofnaði og rak Nýja Galleríið á Laugavegi um miðja síðustu öld. Hann bjó á Bergstaðastræti og þar fór eitthvað í taugarnar á honum rýmið, eitthvað sem honum fannst ekki ganga upp. Hann tók sig til einn góðan veðurdag og reif niður vegg og kom þá í ljós herbergiskytra sem hafði alveg verið lokuð af. Þar fundust kassar fullir af leirgripum sem enginn veit hver bjó til. Magnús tók að mála leirmunina, og væntanlega selja í Galleríinu sínu.

Ég gat ekki annað en keypt nokkra gripi eftir að hafa heyrt sögu þeirra. Og þjóðlegri gerast styttur varla, bændur að draga í dilka, taka í nefið, og smaladrengur með hundinn sinn. Ég hefði alveg getað hugsað mér að eignast fleiri, en hamdi mig. Sé samt pínulítið eftir að hafa ekki keypt krókódílinn og landnámshænuna líka.

Mér finnst eitthvað viðkunnanlegt við kertastjakann, þótt hann teljist seint með fínlegri hlutum. En nú langar mig að fá að vita meira um Magnús Þórarinsson, ætli ég leggist ekki í meira grúsk.

Góðar stundir.

Wednesday, February 1, 2012

Blái Tékkinn







Í dag var ég heppin. Tók stuttan skrens í Góða og hitti þennan fagra bláa vasa, rétt eins og við hefðum mælt okkur mót. It was meant to be. Ég þóttist þekkja handbragðið og flýtti mér að fletta upp eftir að heim var komið. Vasinn er tékkneskur frá því snemma á áttunda áratugnum úr Flora línunni hjá Prachen, eftir glerlistamanninn František Koudelka.

Á heimili mínu býr einmitt bróðir bláa vasans, þessi föli með rauðu skellunum. Einu sinni vissi ég ekkert um hann, eins og sjá má hér. Ekki fyrr en Bóhemíabloggarinn fræddi mig um Koudelka. Svona er maður alltaf að læra eitthvað nýtt (um gamalt).

Og þessi blái vasi gleður mig meira en orð fá lýst.

P.S. Munum eftir skransölunum Dísu og Betu sem eru alltaf eitthvað að bralla.

Link